Lög Meistarafélags iðnaðarmanna í Hafnarfirði.
1.gr.
Félagið heitir Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði.
2.gr.
Heimili félagsins og varnarþing er í Hafnarfirði.
3.gr.
Tilgangur félagsins er:
- Að efla samstarf milli félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra almennt, einkum að því er snertir samskipti þeirra við viðskiptavini og starfsmenn sína.
- Að annast gerð kjarasamninga f.h. félagsmanna sinna.
- Að leiðbeina (félögum) félagsmönnum og vera þeim til aðstoðar í öllu sem þeim má að gagni koma og varðar iðngreinar og atvinnurekstur þeirra.
- Að vinna að aukinni menntun verkkunnáttu og verkvöndun í byggingariðnaði.
4.gr.
Aðild að félaginu geta átt allir þeir sem hlotið hafa meistarabréf í löggiltri iðngrein í byggingariðnaði.
Þeir sem óska eftir inngöngu í félagið skulu senda stjórn þess skriflega umsókn ásamt staðfestingu á að viðkomandi hafi réttindi til að kalla sig meistara í iðngrein sinni. Teljist viðkomandi fullnægja skilyrðum um aðild er það ákvörðun stjórnar hvort viðkomandi verður samþykktur sem nýr félagsmaður. Nýir félagsmenn skulu kynntir á næsta aðalfundi.
Samhliða inngöngu í MIH gerist nýr félagi aðili að Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins fyrir sína hönd og fyrirtækis síns. Þar með skuldbindur hann sig til að lúta þeim reglum og skyldum sem fylgir aðild að þessum félögum.
Heimilt er að veita aukaaðild að félaginu að uppfylltum skilyrðum sem eru tilgreind nánar í viðauka A við lög þessi.
Félagsmenn skulu greiða árgjald til félagsins í samræmi við ákvörðun aðalfundar ár hvert. Gjalddagar ákvarðast af stjórn. Dragist greiðslur árgjalds um meira en einn mánuð er heimilt að krefja viðkomandi um hæstu lögleyfðu dráttarvexti allt frá gjalddaga.
Fullgildir félagsmenn, sem náð hafa 70 ára aldri, geta sótt um að vera undanþegnir skyldu til greiðslu árgjalds enda hafi þeir hætt störfum sem iðnmeistarar. Heiðursfélagar skulu vera undanþegnir skyldu til greiðslu árgjalds en halda öllum félagsréttindum. Þeir félagar, sem vegna mikilla veikinda, tapa svo starfsorku sinni að þeir eru frá vinnu eitt ár eða lengur, geta óskað eftir því við stjórn að árgjald sé fellt niður en þeir skulu þó halda öllum félagsréttindum.
5.gr.
Úrsagnir úr félaginu skulu vera skriflegar og viðkomandi verður að vera skuldlaus við félagið til að úrsögnin taki gildi. Félagsgjald skal að fullu greiða út það ár sem úrsögn á sér stað. Enginn getur þó sagt sig úr félaginu meðan á vinnudeilu eða verkbanni stendur.
6.gr.
Félagsmönnum í meistarafélaginu er óheimilt að ganga í verk sem annar félagsmaður hefur gert samning um nema þeir geri með sér samning þar um. Verði ágreiningur um slíkt með félagsmönnum skal leita úrskurðar stjórnar.
7.gr.
Telji félagsmaður þörf á aðgerðum vegna ágreinings á vinnustað skal hann senda skrifstofu félagsins tilmæli þar að lútandi, ásamt skýrslu um tildrög málsins. Þá ber framkvæmdastjóra að ákveða málsmeðferð í samráði við formann félagsins.
8.gr.Meistarafélag iðnaðarmanna starfrækir Gæðaráð. Tilgangur þess er að stuðla að bættum verkgæðum meðal félagsmanna og skera úr ágreiningi. Gæðaráð tekur eingöngu upp ágreiningsmál sem eru á milli félagsmanna.
Þyki verkkaupa eða meistara ástæða til getur hann óskað eftir að Gæðaráð skoði verk og leggi mat á fagleg gæði þess eða galla. Hlutverk Gæðaráðs er ekki að kveða upp úr varðandi verðlagsmál. Um starfsemi og verklag Gæðaráðs vísast til starfsreglna þess sem nánar eru tilgreindar í viðauka B við lög þessi.
9.gr.
Verði félagið við kröfu einstaka félagsmanna um aðgerð sem leiðir til sérstaks kostnaðar fyrir félagið, svo sem með rekstri mála fyrir dómstólum og/eða greiðslu skaðabóta, skal félagið bera allan kostnað af því enda sé málinu þannig háttað að það snerti hag iðngreinarinnar eða félagsmanna.
10.gr.
Stjórn félagsins er skipuð 5 mönnum í aðalstjórn, formanni, ritara, gjaldkera, varaformanni og vararitara og þremur í varastjórn. Kosning stjórnar fer þannig fram: Formaður skal kosinn fyrstur til tveggja ára. Næst skal kjósa tvo meðstjórnendur, þ.e. ritara og vararitara, til tveggja ára. Það ár sem formaður, ritari og vararitari eru ekki í kjöri skal kjósa tvo meðstjórnendur, þ.e. varaformann og gjaldkera til tveggja ára.
Varamenn skulu vera þrír og ávallt kosnir/kjörnir til eins árs.
Að lokum skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara til eins árs í senn.
Einungis fullgildir félagar MIH hafa rétt til stjórnarsetu í MIH.
11.gr.
Stjórn hefur á hendi yfirstjórn allra mála milli funda. Hún ræður framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn og ber að gera skriflegan samning í hverju slíku tilviki. Stjórnin ber ábyrgð á daglegum rekstri skrifstofu félagsins og semur reglugerð um starfsemi hennar.
12.gr.
Félaginu ber að hafa opna skrifstofu sem annast allar framkvæmdir/alla starfsemi félagsins að fyrirlagi stjórnar. Skrifstofan skal vera félagsmönnum innan handar með allt það sem þeim má að gagni koma varðandi rekstur fyrirtækja þeirra svo og allt sem lýtur að réttindum og skyldum félagsmanna. Einnig er skrifstofunni heimil verktaka, svo sem uppmæling verka, magntaka o.fl. gegn greiðslu.
13.gr.
Stjórn fer með æðsta vald MIH milli aðalfunda. Formaður boðar til allra funda félagsins og stjórnar þeim. Formanni er heimilt að tilnefna fundarstjóra í sinn stað. Í forföllum formanns gegnir varaformaður störfum hans. Ritari, vararitari í hans stað, skal rita fundagerð félagsins í stuttu máli og skýra meðferð/afgreiðslu mála sem berast stjórn.
Á stjórnarfundum skulu allir viðstaddir fundarmenn undirrita fundargerð.
Óski stjórnarmenn eða aðrir að haldinn sé stjórnarfundur þarf að geta um ástæðu. Þá ber formanni að boða til slíks fundar svo fljótt sem við verður komið.
Berist félagsstjórn til meðferðar málefni, sem að dómi þriggja stjórnarmanna eða fleiri er svo brýnt að rétt sé að leita til félagsmanna um afgreiðslu þess, ber formanni að boða til almenns félagsfundar. Félagsfundi skal boða með dags fyrirvara. Fundir eru löglegir sé löglega til þeirra boðað.
Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á öllum fundum félagsins nema annað sé tekið fram. Falli atkvæði jöfn um lausn mála eða ákvörðun fundar skal atkvæði formanns ráða úrslitum nema um lagabreytingu sé að ræða en þær öðlast því aðeins gildi að 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna greiði þeim atkvæði. Lögum má aðeins breyta á aðalfundum.
Stjórn félagsins fer með atkvæði félagsmanna M.I.H. innan Samtaka iðnaðarins.
14.gr.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur skal haldinn í febrúar ár hvert. Skal til hans boðað með tölvupósti, til þeirra sem skráðir eru í félagatali MIH með netfang, og bréflega, til þeirra sem ekki eru skráðir með netfang, með 7 daga fyrirvara. Í fundarboði skal tillaga stjórnar að uppstillingu til stjórnarkjörs fylgja með. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn fyrir 1. nóvember. Ef lagabreytingar liggja fyrir skal boða til almenns félagsfundar og þær kynntar. Einnig skal auglýsa lagabreytingar í aðalfundaboði. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Einungis þeir félagsmenn, sem skuldlausir eru við félagið, hafa rétt til að sitja aðalfund.
Málaskrá aðalfundar:
- Formaður setur fund.
- Kosning fundarstjóra og ritara.
- Kynning á nýjum félagsmönnum og veiting heiðursviðurkenninga.
- Formaður gefur yfirlit um störf stjórnar á síðastliðnu ári.
- Formenn nefnda flytja skýrslu um störf sín síðasta starfsár.
- Endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðasta ár lagðir fram til afgreiðslu.
- Lagabreytingar, enda hafi þær verið kynntar í fundarboði.
- Kosning stjórnar sbr. 10.gr. laga.
- Kosning varamanna og skoðunarmanna sbr. 10.gr. laga.
- Stjórn leggur fram fjárhagsáætlun fyrir komandi ár, tillögur um árgjald.
- Önnur mál.
15.gr.
Reikningsár félagsins er almanaksárið og skal ársreikningum þess lokið eigi síðar en 20. dag janúarmánaðar ár hvert. Félagskjörnir skoðunarmenn skulu hafa lokið störfum sínum fyrir 8.febrúar.
16.gr.
Brot á lögum þessum svo og löglegum samþykktum stjórnar eða félagsfundar veitir stjórn heimild til að víkja viðkomandi úr félaginu um lengri eða skemmri tíma. Skjóta má úrskurði stjórnar til félagsfundar til endanlegrar meðferðar. Skal það gert innan eins mánaðar frá úrskurði stjórnar.
17.gr.
Hætti félagið störfum skulu eignir þess renna til þeirra stofnunar sem að dómi félagsslitafundar er skyldust starfsemi félagsins og líklegust til að koma meisturum félagsins að mestum notum.
Um félagsslit ber að hafa tvo fundi með mánaðar millibili og þurfa 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna að samþykkja slitin á báðum fundum svo að löglegt sé.
18.gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Þannig samþykkt á aðalfundi 15.febrúar 2020.
Viðauki A:
Skilyrði fyrir aukaaðild að MIH:
Til þess að geta orðið aukaaðili að MIH þarf viðkomandi meistari að færa sönnur á að hann starfi ekki sem sjálfstæður atvinnurekandi. Tilkynna skal skrifstofu félagsins tafarlaust ef breytingar verða á fyrrgreindum skilyrðum.
Réttindi og skyldur aukaaðila:
Aukaaðili að MIH getur hvorki setið í stjórn félagsins né komið fram fyrir hönd félagsins og hann hefur ekki kosningarétt á fundum félagsins. Aukaaðili greiðir einungis félagsgjald MIH, en er undanskilinn öðrum gjöldum sem fullgildir aðilar MIH hafa skuldbundið sig til að greiða.
Viðauki B:
Reglur um starfshætti Gæðaráðs:
· Senda skal skriflega ósk til félagsins ásamt lista yfir þau atriði sem óskast skoðuð.
· Matsnefnd skal skipuð og skal hún hefja störf telji framkvæmdastjóri og formaður ástæðu til.
- Í matsnefnd skulu sitja framkvæmdastjóri og einn til tveir félagsmenn eða fleiri sem framkvæmdastjóri tilnefnir. Þeir skulu vera úr þeirri faggrein sem málið varðar.
- Félagsmenn MIH eru skuldbundnir til að sinna slíku kalli verði eftir því leitað.
- Félagið ber kostnað af vinnu Gæðaráðs.
- Félaginu er heimilt að innheimta útlagðan kostnað hjá þeim aðila sem matsnefnd úrskurðar að skuli bera kostnað af vinnu Gæðaráðsins.
- Framkvæmdastjóra er heimilt að kveðja til sérfróðan aðila t.d. frá R.b. telji hann þörf á því.