9. UPPMÆLING
Í 14. gr. laga MIH frá stofnfundi félagsins í ársbyrjun 1968 segir:
„Félaginu ber að hafa opna skrifstofu, er annast allar framkvæmdir félagsins að fyrirlagi stjórnar, svo sem uppmælingar verka ofl. gegn greiðslu. Heimilt er einnig, ef stjórn telur fært að láta skrifstofuna annast um innheimtu fyrir félagsmenn, aðstoða við bókhald, skattaframtöl og fleira slíkt.“
Þessari skyldu hefur MIH sinnt alla tíð, þótt fyrirkomulag nú sé talsvert breytt frá því sem var í upphafi. Áður en MIH og FBH urðu til var þetta verkefni á höndum Iðnaðarmannafélagsins. Iðnaðarmannafélagið hafði breytt starfsskipulagi sínu árið 1963. Var öllum iðnaðarmönnum frá þeim tíma skylt að vera félagar í því og samhliða þessu var rætt um það í alvöru að Iðnaðarmannafélagið þyrfti að starfrækja eigin stofu til að sinna uppmælingu. Á þessum tíma jókst uppmælingavinna í byggingariðnaði jafnt og þétt og dæmi voru um að mælingamenn úr Reykjavík kæmu til að mæla upp nýbyggingar í Hafnarfirði. Iðnaðarmenn sáu sér hag í að vinna í uppmælingu sem skilaði þeim betri kjörum að jafnaði. Iðnaðarmannafélagið setti á fót eigin mælingastofu árið 1964 og til hennar var ráðinn starfsmaður, Guðmundur Þorleifsson, húsasmiður, sem starfaði samfleytt við mælingar allt til starfsloka 1990. Var hann eini starfsmaður hennar. Í fyrstu voru flestar mælingar tengdar mótauppslætti smiða en ásókn iðnaðarmanna í að vinna í uppmælingu óx hratt og fljótlega bættust múrarar og pípulagningamenn í hópinn. Þannig var fyrirkomulag við uppmælingu í Hafnarfirði allt til fyrrihluta ársins 1968 eða þar til skömmu eftir stofnun FBH og MIH. Félögin höfðu haft sameiginlega skrifstofu á Linnetsstíg 3 og samþykkt var af beggja hálfu að reka mælingastofuna sameiginlega. Þessi samrekstur gekk þó ekki vel, halli hafði verið á skrifstofuhaldinu og ekki ríkti einhugur milli félaganna um þetta rekstrarform.
Á félagsfundi í mars 1969, rúmu ári eftir stofnun MIH og FBH, kom fram tillaga á félagsfundi MIH um að segja upp gildandi kjara- og málefnasamningi, auk þess sem lagt var til að samningi milli félaganna um sameiginlega mælingastofu yrði einnig sagt upp. Tillagan var samþykkt samhljóða. Um eins árs skeið eða fram á mitt ár 1970 annaðist FBH, sem þá hafði fundið sér skrifstofuhúsnæði á Strandgötu 1, rekstur mælingastofunnar. Um svipað leyti fór MIH að líta í kringum sig eftir húsnæði til frambúðar og varð lendingin sú, að MIH flutti skrifstofu sína einnig á Strandgötu 1 og var rekstur mælingastofunnar upp frá því á hendi Meistarafélagsins en í sambýli og samvinnu við FBH. Ástæða þess var m.a. sú að það þótti æskilegt að bæði félögin hefðu skrifstofur í námunda hvort við annað. Helgaðist það t.d. af formi eyðublaða á þeim tíma. Mælingastofan var síðan til húsa á Strandgötu 1 til ársins 1977 en flutti þá í eigið húsnæði FBH á Austurgötu 4. Ólafur annaðist mælingar fyrir hönd MIH í samvinnu við Guðmund Þorleifsson af hálfu FBH, en báðir aðilar þurftu að fara yfir mælingar.
Ekki er hægt að skiljast svo við starfsemi skrifstofu Meistarafélagsins án þess að gera stuttlega grein fyrir uppmælingunni sem slíkri sem var meðal helstu verkefna skrifstofunnar frá upphafi en að auki aðstoðaði skrifstofan við tilboðsgerð, skattamál og síðar magntöku við nýbyggingar fyrir félagsmenn sína. Uppmæling hefur verið tengd störfum iðnaðarmanna um áratugaskeið. Uppmæling er í grunninn verðskrá sem er tengd afköstum og hefur eftir því sem næst verður komist verið við lýði að minnsta kosti frá því á fjórða áratug síðustu aldar. Hvernig uppmælingin kom til í upphafi liggur ekki ljóst fyrir, en í ágripi af 50 ára sögu Meistarafélags húsasmiða er fjallað nokkuð um uppmælingu. Jósef Halldórsson starfaði lengi hjá Meistarafélagi húsasmiða í Reykjavík og annaðist mælingar. Hann var einn af stofnendum félagsins. Jósef lauk sveinsprófi 1937 en í afmælisriti Meistarafélags húsasmiða frá 2004 rifjaði hann upp nokkur atriði sem tengjast þróun mælinga og taxta og er að sjálfsögðu átt við uppmælingu á vinnu húsasmiða: „Ég heyrði fyrst talað um mælingar af þessu tagi á námsárunum en þá vann Björn Rögnvaldsson að verðskrárgerð. Sú verðskrá kom út 1937“ „ ... og var eitthvað notuð á árunum 1942–1950, en mælingar jukust með tilkomu nýrrar verðskrár 1953.“ Endurskoðun og lagfæringar á mælingakerfinu voru síðan gerðar reglulega á árunum 1960 til 1980 og fram yfir þann tíma, þar sem ýmsar tæknibreytingar eins og t. d. kerfismót kölluðu á breytingar á verðskrá. Af þessu má ráða að uppmæling í einhverri mynd á vinnu húsasmiða og fleiri stétta iðnaðarmanna hafi verið komin til sögunnar þegar á fyrrihluta síðustu aldar. Hvort hún hafi verið að erlendri fyrirmynd eða hvernig upphaf mælinga var nákvæmlega er ekki ljóst.
Uppmæling hafði einhverra hluta vegna lengi misjafnt orð á sér. Iðnaðarmenn voru taldir hagnast á uppmælingu og stundum kallaðir „uppmælingaraðall“ í öfundar- eða niðrunartóni, þótt orðið heyrist sjaldan nú orðið. Fyrir iðnmeistarann hefur uppmæling nýst vel sem verkstjórnartæki en gerir líka þá kröfu til hans að allur undirbúningur sé í lagi og nauðsynleg aðföng til staðar til að tryggja að menn geti unnið vel og skipulega. Ávinningur verkkaupans er styttri verktími en ella. Síðustu 15–20 árin hefur vægi mælinga minnkað jafnt og þétt. Skýrist það meðal annars af breyttu umhverfi við nýbyggingar, þar sem til dæmis útboð og undirverktaka er býsna algeng og erlent vinnuafl sömuleiðis.