8. HELSTU MÁL MIH FYRSTU ÁRIN
    – MÁLEFNASAMNINGUR MIH OG FBH


Þegar fyrstu starfsár Meistarafélagsins eru skoðuð sést að nokkur mál eru fyrirferðarmikil á stjórnarfundum félagsins og sat stjórn félagsins ekki auðum höndum fyrsta starfsárið því að alls voru bókaðir 38 stjórnarfundir. Nú var komin upp ný og eflaust einkennileg staða fyrir ýmsa: félagar sem höfðu lengi setið við sama borð í Iðnaðarmannafélaginu og áttu samleið í að gæta hagsmuna þurftu nú meðal annars að takast á um kaup og kjör. Það var bæði tímafrekt og krefjandi á köflum. Þannig voru helstu mál Meistarafélagsins í upphafi málefnasamningur við Félag byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði, sem segja má að hafi að hluta verið kjarasamningur og að hluta samstarfssamningur. Þá var einnig tekist á um lífeyrissjóðsmál, rekstur og fyrirkomulag sameiginlegrar skrifstofu sem annaðist uppmælingu. Strax í upphafi sótti félagið um aukaaðild að Meistarasambandi byggingamanna og tók þátt í ýmsum störfum þess en sambandið var eins og áður segir eins konar regnhlífarsamtök meistarafélaga í Reykjavík. Sam-hliða þessu var óhjákvæmilegt að gera breytingar á lögum hins rótgróna iðnaðarmannafélags í breyttu umhverfi en bæði meistarar og sveinar töldu eðlilegt að félagið starfaði áfram sem fagfélag, auk þess sem talsverðar eignir voru á hendi þess og skýra þurfti hvernig starfsemi skyldi háttað í nánustu framtíð.

Fyrirhugaður málefnasamningur var þegar kominn á dagskrá rétt eftir stofnun félagsins eða á félagsfundi í mars 1968. Um sitt hvað var deilt áður en tókst að leiða hann til lykta. Vinnan við málefnasamninginn milli Meistarafélagsins og Félags byggingariðnarmanna tók talsverðan tíma af stjórnarstörfum MIH fyrstu misseri félagsins. Við skiptingu sveina og meistara í tvö félög þótti nauðsynlegt að skýra og skerpa ýmis mörk er vörðuðu meðal annars réttindi og skyldur í starfsemi félaganna. Samningurinn var til umræðu, skoðunar og breytinga hjá báðum félögum í rúmt ár og það var ekki fyrr en í byrjun júlímánaðar 1969 eftir all nokkrar deilur um einstök atriði hans að hann var samþykktur samhljóða á félagsfundi í Meistarafélaginu. Það sem einkum var deilt um voru áritanir teikninga og staða einyrkja í hinum nýstofnuðu félögum eins og áður var vikið að, það er að segja þeirra iðnaðarmanna sem unnu eingöngu á eigin vegum og höfðu ekki starfsmenn á launaskrá. Meistarafélagið vildi einskorða rétt til áritana á teikningar við félaga í MIH en félagar í FBH höfðu undangengin ár haft rétt til að árita teikningar til jafns við meistara og gátu illa sætt sig við að missa þann rétt. Staða einyrkja var tilefni deilna eða skoðanaskipta. Þetta voru iðnaðarmenn sem unnu alfarið á eigin vegum og höfðu ekki starfsmenn á launaskrá og gerðu bæði félögin tilkall til þess að einyrkjar væru í röðum þeirra. Auk þessa gagnrýndi FBH Meistarafélagið fyrir að hafa tekið inn í félag sitt iðnaðarmenn sem í raun væru réttir og sléttir launamenn og ættu því frekar heima í FBH.

Niðurstaða þessa ágreinings varð sú að allir launþegar í viðkomandi iðngreinum skyldu vera félagar í FBH, en í Meistarafélaginu „hver sá sem greiðir öðrum laun, er sjálfstæður verktaki og hefur á hendi stjórn í verktakafélagi“ eins og segir í málefnasamningi félaganna. Þá var í samningnum kveðið á um að félagar í Meistarafélaginu hefðu einir rétt til að árita teikningar.

Í málefnasamningum varð ennfremur samkomulag um önnur atriði svo sem greiðslur í lífeyrissjóð frá meisturum, yfirlýsing um að félögin hætti sameiginlegum rekstri skrifstofu, viðurkenning á lífeyrissjóði Félags byggingarmanna, en Meistarafélagið var þeirrar skoðunar að bæði sveinar og meistarar skyldu greiða í Almennan lífeyrissjóð iðnaðarmanna og auk þess kjarasamningstengd mál.