3. SVÆÐASKIPTINGIN


Til frekari skýringa skal þess getið að inn í Straumsvíkurmál á þessum tíma blönduðust einnig fastmótað og rótgróið fyrirkomulag um svæðisbundin réttindi til ákveðinna starfssvæða eins og áður var nefnt og kemur skýrt fram varðandi járniðnaðarmennina. Þannig höfðu hafnfirskir iðnmeistarar einir rétt til að skrifa upp á verk, sem unnin voru í Hafnarfirði og Garðahrepp, eins og Garðabær og Álftanes hétu þá, og reykvískir iðnmeistarar máttu einir skrifa upp á verk sem unnin voru í Reykjavík. Með framvæmdunum í Straumsvík byrjuðu þessar gömlu markalínur að riðlast og í byrjun níunda áratugarins má heita að þær hafi að mestu heyrt sögunni til. Til að gera langa sögu stutta leiddi þetta til þess að hafnfirskir iðnaðarmenn sáu sér ekki annað fært en að skipast í tvö aðgreind félög um áramótin 1967–1968. Þar með hafði fyrirkomulag um skipan stéttarfélags hafnfirskra iðnaðarmanna til áratuga verið brotið upp en stundum var haft á orði í gamni að þessi tvö félög iðnaðarmanna sem urðu til í Hafnarfirði hvoru megin áramótanna 1967 og 1968 væru „tvíburarnir sem Iðnaðarmannafélagið eignaðist á sinni ævi!“

Álverið í Straumsvík. Mynd: Kristján Freyr Þrastarson

Í þessu sambandi er fróðlegt að heyra viðhorf formanns Iðnaðarmannafélags Hafnarfjarðar á þessum tíma, Ólafs Pálssonar, til þessara breytinga, sem hann rifjaði upp í 20 ára afmælisriti MIH:

„Það var þannig, að þegar jarðvegsverktaki hóf störf í Straumsvík og það var verið að reisa þarna skemmu, allmikla að við töldum, en varð reyndar ekki nema smá kofi þegar aðrar byggingar fóru að rísa þarna. En við fórum strax á stúfana og höfðum samband við byggingafulltrúa bæjarins og kvörtuðum yfir því að þarna væri að rísa bygging án uppáskriftar meistara í bænum...“

en skoðun bæjarins var sú að þetta væri bara vinnuskúr og þyrfti ekki uppáskriftar við. Reyndin varð sú að ofan á þetta var svo reist stálgrindarhús.

„Þarna upphófust töluverðar deilur við byggingaryfirvöld í Hafnarfirði út af fyrstu byggingunni þarna suðurfrá. Þessar deilur urðu til þess að byggingafulltrúi tilkynnti okkur, að ef við héldum okkur fast við þessa einokun á uppáskriftarrétti þá myndi hann stuðla að því að Reykvíkingar fengju uppáskriftarrétt í Hafnarfirði, en það var óheimilt áður.“

Í framhaldi af þessari stöðu tóku forystumenn Iðnaðarmannafélags Hafnarfjarðar upp viðræður um nánara samstarf við Meistarasamband byggingamanna, sem var eins konar regnhlífarsamtök meistara-félaganna í Reykjavík og eiginlega varnarsamtök, því það var ekki síst tilgangur sambandsins að koma í veg fyrir samkeppni frá aðilum utan Reykjavíkur. Forsvarsmenn Meistarasambandsins tóku vel í málaleitan hafnfirskra iðnaðarmanna og niðurstaðan varð sú að samkomulag um gagnkvæman uppáskriftarrétt milli Iðnaðarmannafélags Hafnarfjarðar og Meistarasambands byggingamanna var gert.

Eins og áður sagði neituðu erlendu verktakarnir í Straumvík að viðurkenna kauptaxta Iðnaðarmannafélags Hafnarfjarðar; það stæðist ekki lög að sveinar og meistarar innan sama félags gerðu kjarasamning sín í milli. Í reynd þýddi þetta nánast að engir gildandi kjarasamningar voru til staðar samkvæmt þessu, þrátt fyrir skýra afstöðu félagsins til þess að farið væri eftir kaup- og kjarasamningum þess. Um þessa stöðu sem komin var upp í skugga framkvæmda í Straumsvík fjallaði stjórn Iðnaðar-mannafélagsins og niðurstaðan varð sú að þessi ágreiningsmál yrðu ekki leyst á ann hátt en þann að hraða sem kostur væri stofnun félags sveina annars vegar og félags meistara hins vegar, þótt ekki væri til annars en að ganga frá löglegum kaup- og kjarasamningum.