12. FRAMKVÆMDIR OG MANNVIRKJAGERÐ Í HAFNARFIRÐI
Eins og sést af tölum um íbúafjölda hafði verið nokkuð jöfn en stöðug fjölgun í bænum frá því um miðbik síðustu aldar. Byggðin hafði breiðst hægt út frá miðbænum. Hvaleyrarholtið eldra, Kinnahverfið, Hraunin og efra Álfaskeiðið eru dæmi um hverfi sem byggðust um og upp úr miðri öldinni. Óhætt er að tala um sprengingu í byggingu íbúðarhúsnæðis þegar framkvæmdir hófust af fullum krafti í Norðurbænum laust upp úr 1970. Aldrei áður hafði jafnstórt bygginga-svæði verið skipulagt í einu og tekið undir íbúðabyggð í bænum. Þegar Norðurbæjarsvæðið var fullbyggt um miðjan níunda áratuginn voru íbúar í þessum hluta bæjarins um 5 þúsund talsins og langfjölmennasta hverfi Hafnarfjarðar á þeim tíma. Tilkoma álversins hafði vissulega áhrif á hina hröðu og miklu uppbyggingu Norður-bæjarins á áttunda áratugnum. Fjölmargir starfsmenn þess settust að í Hafnarfirði og um langt skeið var hlutfall starfsmanna álversins sem búsettir voru í Hafnarfirði á bilinu 30–40% af heildarfjölda starfs-manna þar. Mörgum Hafnfirðingum þótti í fyrstu reyndar skrítið að tala um Norðurbæ því allt fram að því að þar fór að rísa byggð, hafði Lækurinn skipt bænum í suðurbæ og vesturbæ, en aldrei hafði verið talað um höfuðáttina norður.
Hröð niðursveifla varð í fjölda fullbyggðra íbúða í bænum árin 1969 og 1970, þegar botni var náð, þrátt fyrir að þá væru verið að byrja að byggja í Norðurbænum. Árið 1967 höfðu um 180 íbúðir verið fullbyggðar, en 1970 voru þær aðeins um 50. Næstu fimm árin 1971 til 1975 þegar bygginga-framkvæmdir stóðu sem hæst í Norðurbænum voru hins vegar fullbyggðar árlega um og yfir 150 íbúðir. Fyrst var úthlutað lóðum í Norðurbæ árið 1968 en framkvæmdir fóru rólega af stað. Eftirspurn eftir lóðum þar óx hins vegar hratt og varð mun meiri en bæjaryfirvöld höfðu gert ráð fyrir. Voru þau gagnrýnd m. a. af hálfu FBH fyrir að jafna ekki betur og vanda úthlutun lóða meira en raun var á. Farið var fram á Hafnarfjarðarbær endurskoðaði skipulagsmál í bænum með það að leiðarljósi að jafna framboð og draga þannig úr þeim miklu sveiflum sem byggingariðnaðarmenn höfðu mátt búa við og virtust vera fastur fylgifiskur byggingariðnaðarins.
Séð upp í Norðurbæinn. Mynd: Lárus KarlEkki gekk þetta eftir. Sveiflurnar í byggingaframkvæmdum héldu áfram. Á uppsveiflutímabilinu 1972–1976, þegar uppbygging Norðurbæjarins var hvað hröðust, höfðu tæplega 690 íbúðir verið fullbyggðar. Næsta niðursveifla varð svo strax í kjölfarið á árunum 1977–1981 en þá voru aðeins fullbyggðar um 400 íbúðir. Þetta sveifluástand leiddi til þess að sumir iðnmeistarar hættu, aðrir fóru út í almenna verktakastarfsemi og tilboðsverk og þá oft í öðrum bæjarfélögum sem skapaði hafnfirskum iðnaðarmönnum vinnu.
Að áttunda áratugnum liðnum og í byrjun þess níunda liðnum má heita að Norðurbærinn hafi verið fullbyggt hverfi. Næstu stóru íbúðahverfi sem skipulögð höfðu verið í bænum voru Hvammahverfið og Setbergshverfið og sér þess glögglega stað í fjölda fullbyggðra íbúða því stærstan hluta níunda áratugarins og fram í byrjun þess tíunda er lokið við rúmlega 1300 íbúðir, sem er reyndar fleiri íbúðir en var á Norðurbæjarskeiðinu, þegar tæplega 1100 íbúðir voru kláraðar.
Frá byrjun tíunda áratugarins og allt til dagsins í dag hafa stór og fjölmenn hverfi risið í Hafnarfirði sem hafa líkt og fyrri hverfi í bænum byggst upp mishratt. Yngri hluti Hvaleyrarholts, Áslandshverfin og Vallahverfið, auk síðustu hluta Setbergshverfisins eru þau svæði bæjarins sem hafa byggst upp síðasta aldarfjórðunginn. Frá efnahagshruni 2008 og fram til 2011 varð að heita má stopp í öllum byggingaframkvæmdum. Bankar og fjármálafyrirtæki eignuðust þá mikinn fjölda íbúða á mismunandi byggingarstigi og í mismunandi ástandi. Byggingakranar sem voru til vitnis um mikil umsvif í byggingariðnaðinum og hraða uppbyggingu víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu á góðæristímabilinu hurfu nánast eins og dögg fyrir sólu; voru teknir niður og seldir úr landi. Farið var að tala um „byggingakranavísitölu“ sem mælikvarða á efnahagsástandið.
Þótt hér að ofan hafi verið staðnæmst nokkuð við framkvæmdir við íbúðabyggingar á tímabilinu ber þess að geta, að samhliða hafa auðvitað risið atvinnu- og iðnaðarhverfi í Hafnarfirði þar sem hafnfirskir iðnmeistarar og iðnaðarmenn hafa átt hlut að máli. Er þá nærtækt að nefna fyrst svæðið milli Reykjavíkurvegar og Reykjanesbrautar, en það fór að rísa fljótlega um og upp úr 1970. Svæðið austan og norðan Reykjanesbrautar byrjaði að taka á sig mynd og byggjast að talsverðu leyti á níunda áratugnum. Síðar hafa risið sams konar hverfi bæði við Hvaleyrarbraut og umhverfis suðurhöfnina en yngst slíkra svæða í bænum er stóra iðnaðar- og atvinnuhverfið á Völlunum, sem hefur verið að mótast á síðustu árum, en þar eins og víðar tafði efnahagshrunið 2008 uppbyggingu þess. Vallahverfi. Mynd: Brynjar