11. HAFNARFJARÐARBÆR GEFUR HAFNFIRSKUM IÐNAÐARMÖNNUM LÓÐ


Á Iðnþingi í Hafnarfirði árið 1973 bar það meðal annars til tíðinda að Hafnarfjarðarbær færði iðnaðar-mannafélögunum þremur í bænum lóð undir sameiginlegt framtíðarhúsnæði að gjöf. Þetta var bæði sérstök gjöf og rausnarleg. Gjöfin var síðar staðfest með bréfi, þar sem fram kom meðal annars að engin gjöld yrðu innheimt af fyrirhugaðri byggingu. Lóðin var á skipulögðu iðnaðarsvæði norðan Reykjanes-brautar gegnt Kaplakrikasvæðinu. Ekki er hægt að segja að félögin þrjú hafi á þessum tíma verið beinlínis á hrakhólum með húsnæði, en þau bjuggu við misjafnan húsakost: Iðnaðarmannafélagið átti eigið húsnæði á Linnetsstíg, en bæði meistarafélagið og sveinafélagið leigðu skrifstofuhúsnæði á Strandgötu 1 undir starfsemi sína.

Frá Iðnþingi í Hafnarfirði 1973. Mynd: Tímarit iðnaðarmanna

Af ýmsum ástæðum dróst í allmörg ár að framkvæmdir hæfust á lóðinni. Reynt hafði verið í byrjun níunda áratugarins að kanna hug verkalýðsfélaga í bænum til byggingar sameiginlegs húsnæðis en án árangurs. Það var ekki fyrr en sumarið 1985 sem komið var á samráðsfundi með lóðarhöfum, þ. e. MIH, FBH og Iðnaðarmannafélaginu, þar sem kannaður var hugur félaganna þriggja til að ráðast í húsbygginguna. Iðnaðarmannafélagið ákvað á aðalfundi sínum að vera ekki þátttakandi. Félögin tvö sem eftir voru létu síðan gera teikningu að húsinu en arkitekt hússins var Jón Guðmundsson. Hönnuðir burðarvirkis var Verkfræðistofa Stefáns og Björns, en hönnuður rafmagns Guðmundur Geir Jónsson, raftæknifræðingur. Fyrirhuguð bygging sem og framkvæmdir eða byggingamáti voru að heita má nokkuð fastur liður á stjórnarfundum í Meistarafélagsins um þetta leyti.

Haustið 1986 var síðan farið að leita leiða til að koma byggingu hússins í framkvæmd, kanna hugsanlega samstarfsaðila og fjármögnunarleiðir, en öllum var ljóst að félögin sjálf gætu aldrei á eigin spýtur staðið fyrir fjármögnun þessa 2.360 fermetra húss. Var þá ákveðið að leita að aðila sem væri reiðubúinn að byggja húsið og annast fjármögnun þess jafnframt. Var öllum félagsmönnum í MIH sent kynningarbréf vegna þessa og þeim boðið að taka þátt í forvali. Fimm aðilar tilkynntu þátttöku og eftir opnun þeirra þriggja tilboða sem bárust og þegar byggingarnefndir félaganna höfðu rætt við hlutaðeigandi var ákveðið að taka tilboði Byggðaverks. Í endanlegum samningum við Byggðaverk æxluðust mál þannig að bæði MIH og FBH seldu byggingarétt alls hússins til Byggðaverks gegn því að fá hvort um sig húsnæði til eignar og afnota undir starfsemi sína til frambúðar og eiga auk þess forkaupsrétt að meira húsrými. Á þennan hátt þurfti hvorugt félaganna að setja sig í fjárhagslegar skuldbindingar við framkvæmdirnar. Meistarafélagið fékk húsnæði í norðurenda 2. hæðar og nýtti sér auk þess forkaupsrétt sinn að viðbótarhúsnæði og átti þannig alls tæplega 280 fermetra rými á hæðinni. Hluta þessa húsnæðis hefur félagið síðan leigt út til óskyldra aðila. Hefur það skapað félaginu öruggar tekjur í tæplega þrjá áratugi. Byggingu Bæjarhrauns 2 var lokið fyrrihluta árs 1989 og var formlega tekið í notkun á haustdögum þetta ár. Frá þeim tíma hefur Meistarafélagið haft skrifstofu og aðsetur í húsinu.