FRÁ FORMANNI


Á þeim 50 árum sem MIH hefur starfað hafa félagar þess, hafnfirskir iðnmeistarar, átt drjúgan þátt í þeirri margháttuðu uppbyggingu sem orðið hefur í Hafnarfirði, hvert sem litið verður. Verka þeirra sér víða stað, þótt vissulega hafi aðrir einnig komið að málum. Upphaf félagsins má rekja til byggingar álvers í Straumsvík. Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði hafði strax nokkra sérstöðu meðal meistarafélaga á höfuðborgarsvæðinu. Önnur meistarafélög sem þá þegar voru starfandi tengdust einni sérstakri iðngrein mannvirkjagerðar. MIH var hins vegar stofnað utan um allar mannvirkjagreinar, að frátöldum málmiðnaði, og mótaði þetta þegar starf félagsins.

Á þessum tímamótum er mér efst í huga sá styrkur sem ávallt hefur einkennt félagsmenn sem og alla starfsemi Meistarafélagsins. Það var gæfa þess að strax í upphafi völdust til forystu menn sem höfðu ekki síst öðlast reynslu og skólast í félagsstörfum á vegum Iðnaðarmannafélags Hafnarfjarðar; menn sem báru hag MIH fyrir brjósti og höfðu bæði metnað og dug til að vinna félaginu gagn af heilum hug. Hér er ekki eingöngu átt við þá sem valist hafa til forystu eða stjórnarsetu, því svo sannarlega hafa aðrir félagsmenn einnig lagt sitt af mörkum við uppbyggingu og viðgang MIH, bæði í almennum félagsstörfum sem og starfi í ýmsum fastanefndum. Allt hefur þetta stuðlað að því að festa MIH í sessi sem eitt öflugasta iðnmeistarafélag landsins.

Í tilefni þessara tímamóta, sem nú er fagnað, tók stjórn félagsins þá ákvörðun fyrir fimm árum að leggja fyrir ár hvert tiltekna upphæð úr rekstri félagsins til ritunar sögu félagsins. Stjórnin taldi mikilvægt að safna sögunni saman í einn stað, ekki síst með framtíðina í huga, í stað þess að hafa hana í bútum og dreifða í afmælisritum gefnum út á 20, 30 og 35 ára afmælum MIH auk margháttaðra annarra upplýsinga sem finna má m.a. í fundargerðum, á ljósmyndum og öðrum gögnum félagsins. Fenginn var til verksins Sæmundur Stefánsson, BA í íslensku og sögu, og vil ég fyrir hönd félagsins færa honum bestu þakkir fyrir gott starf. Afurðin liggur nú fyrir í glæsilegu og vel framsettu ágripi sem lesa má á heimasíðu félagsins. Sú ákvörðun var tekin hafa ritið eingöngu í vefformi en ekki prentaðri útgáfu eins og lengst af hefur tíðkast um slík verk. Lilja Björk Runólfsdóttir, grafískur hönnuður, hefur haft veg og vanda af uppsetningu og frágangi ritsins. Ég hvet alla félagsmenn sem og aðra til að kynna sér sögu félagsins. Sögunni er þó hvergi nærri lokið. Ár og áratugir eiga eftir að bætast við ef að líkum lætur og það er þeirra sem taka við síðar að halda vel utan um söguna og gæta hennar, því að hún er jafnverðmæt og veraldlegar eigur og hagsmunir félagins á hverjum tíma.

Fyrir hönd núverandi stjórnar sem og fyrrverandi formanna og stjórna vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem komið hafa að uppbyggingu félagsins í hálfa öld fyrir gott og óeigingjarnt starf og vona svo sannarlega að félagið dafni og eflist á komandi árum og áratugum.

Ágúst Pétursson