Ágúst Pétursson endurkjörinn formaður á aðalfundi MIH
Aðalfundur MIH var haldinn laugardaginn 18 feb. Fundarstjóri var kjörinn Gylfi Sigurðsson og Haukur B. Gunnarsson ritari.
Dagskrá var samkvæmt lögum félagsins. Formaður flutti skýrslu stjórnar og nefndir sínar skýrslur. Þá var ársreikningur og fjárhagsáætlun næsta starfsárs kynntar og bornar upp til samþykkis. Hvoru tveggja hlaut samþykki allra fundarmanna.
Undir önnur mál kom fram að lóðar- og skipulagsmál eru félagsmönnum ofarlega í huga og ljóst að nýrrar stjórnar bíður það mikilvæga verkefni að reyna að tryggja að í framtíðinni verði gætt meira jafnræðis við framkvæmd næsta útboðs. En ábyrgðin á úthlutun lóða liggur ávallt í höndum kjörnra fulltrúa og embættismanna.
Að þessu sinni var kosið um formann, aðstoðarritara og þrjá varamenn. Í framboði til formanns var Ágúst Pétursson og til ritara Jón Þórðarson. Báðir kjörnir til tveggja ára.
Í framboði í varastjórn voru þeir. Sveinberg Gíslason, Hjálmar R. Hafsteinsson og Gísli Ölver Sigurðsson. Allir kjörnir til eins árs.
Engin mótframboð bárust og því allir kjörnir.
Fimm nýir félagsmenn hlutu formlega inntöku í félagið á þessum aðalfundi. Félagsmenn eru nú 146 talsins.