Aðalfundur og árshátíð MIH
Laugardaginn 20. febrúar s.l fór fram aðalfundur félagsins. Fundurinn var haldinn að Grand Hótel Reykjavík og hófst kl 14.00. Um kvöldið fór fram árshátíð félagsins á sama stað. Fyrir fundinn var félögum og mökum þeirra boðið í bröns í matsal hótelsins.
Laugardaginn 20. febrúar s.l fór fram aðalfundur félagsins. Fundurinn var haldinn að Grand Hótel Reykjavík og hófst kl 14.00. Um kvöldið fór fram árshátíð félagsins á sama stað. Fyrir fundinn var félögum og mökum þeirra boðið í bröns í matsal hótelsins.
Undirritaður setti fundinn og í framhaldi bar hann upp tillögu um Harald Ólason sem fundarstjóra og Jón Þórðarson sem fundarritara og voru þær tillögur samþykktar. Því næst var gengið til dagskrár eins og lög félagsins kveða á um.
Að þessu sinni voru teknir inn tveir nýir félagsmenn eða nokkru færri en árið áður, en þá voru teknir inn 12 nýir félagsmenn. Nokkuð hefur dregið úr umsóknum um nýja félagsaðild meðal allra meistarafélaga en ástæða þess má rekja til samdráttar í nýliðun fagreinanna undanfarin ár sem aftur skilar sér í fækkun iðnsveina til náms í meistaraskóla.
Því næst flutti undirritaður skýrslu stjórnar sem gaf yfirlit um störf stjórnar á síðastliðnu starfsári. Þar var komið inn á störf nefnda, félagsmál og samskipti við yfirvöld. Þá fjallaði undirritaður um samstarf sitt við Samtök iðnaðarins og þátttöku sína í störfum innan Meistaradeildar SI og Mannvirkjaráðs SI. Einnig var fjallað um menntamál, komandi tíma og horfur í atvinnumálum og margt fleira.
Að þessu loknu fóru formenn nefnda yfir sínar skýrslur en það eru skemmtinefnd, orlofshúsanefnd, laganefnd og ritnefnd. Öllum nefndarmönnum er þakkað gott starf enda nefndarstörf ein af grunnstoðum félagsins.
Því næst voru lagðir fram og kynntir endurskoðaðir reikningar félagsins.
Lítilsháttar umræður urðu um skýrslur og reikninga og að lokum voru reikningar félagsins samþykktir af öllum mættum félagsmönnum án athugasemda.
Engar lagabreytingar lágu fyrir fundinum og því var gengið næst til kosninga í stjórn félagsins.
Að þessu sinni voru í framboði til stjórnar gjaldkeri og varaformaður sem eru kosnir til tveggja ára sem og þrír varamenn sem kosnir eru til eins árs.
Í framboði til gjaldkera var áður kjörinn gjaldkeri, Jón V. Hinriksson, og í framboði til varaformans áður kjörinn varaformaður, Jónas Sigurðsson.
Í framboði til varamanna voru áður kjörnir varamenn stjórnar, þeir Sveinberg Gíslason, Gísli Ölver Sigurðsson og Hjálmar R. Hafsteinsson. Engin mótframboð bárust og voru þeir því allir lýstir réttkjörnir hver í sitt embætti.
Stjórn MIH er nú skipuð:
Ágúst Pétursson Formaður
Jónas Sigurðsson Varaformaður
Jón V. Hinriksson Gjaldkeri
Jón Þórðarson Ritari
Haukur Gunnarsson Vararitari
Sveinberg Gíslason Varamaður
Gísli Ölver Sigurðsson Varamaður
Hjálmar R. Hafsteinsson Varamaður
Varamenn stjórnar taka að fullu þátt í öllum störfum stjórnar.
Þá voru kosnir skoðunarmenn reikninga. Fyrir lá að fyrverandi skoðunarmenn reikninga, þeir Haraldur Ólason og Ólafur Guðmundsson, myndu ekki gefa kost á sér eftir áratuga setu. Í framboði voru Andrés Hinriksson og Gísli J. Johnsen og áður kjörinn varaskoðunarmaður Heimir Ólafsson. Engin mótframboð bárust og voru þeir því réttkjörnir.
Haraldi Ólasyni og Ólafi Guðmundsyni er hér með þökkuð góð störf fyrir félagið og þeim óskað velfarnaðar.
Að kjöri loknu var fjárhagsáætlun næsta árs lögð fram og var hún samþykkt án athugasemda.
Nokkrar umræður urðu undir liðnum önnur mál. Má þar helst nefna lækkun á félagsgjöldum til handa SI og SA og var fyrirspyrjendum bent á að félagið væri ekki með ákvörðunarvald í þeim efnum og félagsmönnum bent á mæta á aðalfundi SI og SA ef þeir vildu hafa áhrif á þessi gjöld. Einnig var spurt um meðgreiðslur til handa þeim meisturum sem taka að sér iðnema og var vísað í að viðkomandi iðnmeistarar geti sótt sér framlag úr Vinnustaðanámssjóði en framlagið fer eftir fjölda nema hverju sinni. Félagsmenn fá sendan tölvupóst reglulega þar sem þetta er áréttað.
Að lokum var fundarstjóra og fundarritaða þökkuð sín störf sem og félagsmönnum fyrir góðan fund en þeir voru alls 42 talsins.
Um kvöldið fór fram árshátíð félagsins sem tókst einkar vel að venju undir traustri stjórn skemmtinefndar. Veislustjóri kvöldsins var Ingvar Jónsson, Pappi með meiru, og var það mál veislugesta að hann hefði verið einn sá besti á árshátíð félagsins í langan tíma. Að loknu frábæru borðhaldi og góðri skemmtun Ingvars veislustjóra og grínarans Jóahanns Alfreðs tók við dansband hússins og var dansað inn í nóttina. Góð mæting var á árshátíðina eða um 170 mans.
Ágúst Pétursson, formaður MIH