Aðalfundur og árshátíð MIH lokið

20. feb. 2024

Aðalfundur Meistarafélags iðnaðarmanna í Hafnarfirði (MIH) var haldinn á Hótel Selfossi 17. febrúar síðastliðinn.

Að venju heldur MIH aðalfund og árshátíð sama daginn enda hefur það reynst mjög vel. Dagurinn byrjar á því að félagsmönnum og mökum er boðið í „brunch“. Að brunch loknum mæta félagsmenn til aðalfundar en makar nýta sér það sem í boði er á Selfossi, sem er mjög margt eins og allir vita. Sérstaklega með tilkomu nýja Miðbæjarins.

Ávallt hafa félagsmenn fjölmennt á aðalfundinn og var engin breyting á því nú. Gaman að geta þess að 60 félagsmenn mættu á fundinn. Að þessu sinni voru 6 nýjar inngöngur kynntar á þessum aðalfundi.

Formaður félagsins, Jón Þórðarson, flutti greinagóða skýrslu þar sem farið var yfir það sem helst hefur brunnið á félagsmönnum ásamt því að tilgreina hvað Samtök iðnaðarins (SI) og Meistaradeild SI (MSI) hafa verið að vinna fyrir félagsmenn.

Að venju voru skipulags- og lóðamál mikið rædd og leggur félagið áherslu á að ávallt séu lóðir í boði fyrir félagsmenn til að halda verkefnastöðunni stöðugri. Því miður lítur út fyrir að lóðamál í Hafnarfirði verði ekki í góðum málum nema „Svæðisskipulagi Höfuðborgarsvæðisins“ verði breytt. Það lítur út fyrir það að allar lóðir, samkvæmt skipulagi, verði búnar árið 2025/2026 sem er óásættanlegt.

Að þessu sinni var kosið um varaformann og gjaldkera. Fráfarandi stjórnarmenn gáfu báðir kost á sér áfram og komu engin mótframboð að þessu sinni. Aðalstjórn er óbreytt og er þannig skipuð: Jón Þórðarson formaður, Hjálmar R. Hafsteinsson varaformaður, Sigurfinnur Sigurjónsson gjaldkeri, Arnar Þór Guðmundsson ritari og Hilmar Snær Rúnarsson meðstjórnandi. Ein breyting varð á varastjórn MIH, Kristinn Kristinsson dó framboð sitt til baka þegar Gísli Johnsen ákvað að gefa kost á sér í varastjórn. Varastjórn MIH er þá þannig skipuð, Kristófer Þorgeirsson, Arnar Dór Hannesson og Gísli Johnsen.

Að lokum er gaman að segja frá því að um kvöldið var árshátíð félagsins haldin og var gleðin allsráðandi. Gestir hátíðarinnar voru 172 talsins og voru allir á því að þetta hafi verið ein besta árshátíð sem haldin hefur verið.

Hér má sjá frétt á heimasíðu SI um aðalfundinn.